Ferill 490. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


154. löggjafarþing 2023–2024.
Þingskjal 802  —  490. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Halldóri Auðar Svanssyni um stefnu í áfengis- og vímuvörnum.


     1.      Hvaða tímaramma hefur ráðuneytið sett sér um setningu nýrrar stefnu í áfengis- og vímuvörnum, sbr. svar ráðherra við fyrirspurn á þingfundi 24. október 2023?
    Áætlað er að mótun heildrænnar stefnu og aðgerðaáætlunar fyrir fíknisjúkdóma sem tekur til snemmtækra inngripa, greiningarvinnu, meðferðar og endurhæfingar verði lokið á árinu 2024.

     2.      Hvert er fyrirhugað verklag við setningu stefnunnar?
    Áætlað er að fylgja samræmdu verklagi Stjórnarráðs Íslands um stefnumótun.

     3.      Hvaða áform eru um samráð við mótun stefnunnar?
    Mikil áhersla verður lögð á samráð í stefnumótunarferlinu. Starfshópi með fulltrúum helstu hagsmunaaðila, þar með talið fulltrúum notenda þjónustu, verður falið að móta drög að stefnu og aðgerðaáætlun í sem víðtækustu samráði þvert á kerfi. Þá verða drög að stefnu og aðgerðaáætlun sett í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda eins og stefnumótunarverklag segir til um.

     4.      Hver verða markmið stefnunnar og hvaða stefnumótun, innlend sem alþjóðleg, verður höfð til hliðsjónar við mótun hennar?
    Markmið stefnunnar mótast í stefnumótunarferlinu. Í stefnumótunarferlinu verður tekið mið af samþykktri heilbrigðisstefnu til 2030 og samþykktri lýðheilsustefnu til 2030. Þá styður samþykkt stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum við þessa vinnu þar sem fíknisjúkdómar eru undirflokkur geðheilbrigðismála. Einnig verður litið til aðgerðaáætlunar um innleiðingu geðræktarstarfs, forvarna og stuðnings við börn og ungmenni í skólum á Íslandi sem var samþykkt í ríkisstjórn árið 2020. Ná aðgerðirnar þvert á mennta- og barnamálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og sveitarfélög. Litið verður til alþjóðlegra staðla, svo sem frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og stefna nágrannalanda í málaflokknum.